Líkur á þunglyndi aukast eftir því sem félags- og efnahagsleg staða er verri. Í COVID-kreppunni bar lágtekjufólk og fólk í viðkvæmri stöðu á íslenskum vinnumarkaði auknar byrðar af kreppunni umfram þau sem voru betur sett. Þegar áhættan af fjárhagsþrengingum voru metnar kom í ljós sterk tengsl milli efnislegs skorts og aukinnar tíðni þunglyndiseinkenna.
Þetta er niðurstaða rannsóknar Vörðu - rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Fjallað er um rannsóknina í ritrýndri grein Vörðu sem birtist í nýútgefnu tímariti Félagsfræðinga, Íslenska þjóðfélaginu.
„Niðurstöður rannsóknarinnar um að efnislegur skortur hafi verið öflugasti áhættuþáttur þunglyndiseinkenna meðal íslensks launafólks á tímum COVID-19 sýnir mikilvægi þess að aðgerðir í kjölfar heimsfaraldursins snúi að því að tryggja heilsu en ekki síður fjárhagslegt öryggi“ segir Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu.
Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli geðheilsu og kyns, aldurs, uppruna, menntunar, tekna, fjárhagsþrenginga og atvinnuleysis. Nýlegar rannsóknir benda einnig til þess að því meiri sem fjárhagsþrengingar fólks eru því meiri er áhrifamáttur þeirra í tenglum við þunglyndi, en faraldurinn hafi jafnframt magnað upp þann félagslega- og efnahagslega ójöfnuð í geðheilsu sem fyrir var á vinnumarkaði.
Rannsókn Vörðu á tengslum þunglyndiseinkenna og fjárhagsþrenginga benda til þess að sambærilegra áhrifa hafi gætt á íslenskum vinnumarkaði.
Rithöfundar greinarinnar draga þá ályktun að verulegur félagslegur og efnahagslegur ójöfnuður í þunglyndiseinkennum launafólks hafi ríkt á Íslandi á tímum COVID-19. Stjórnvöld hafi ekki varið afkomu og lífskjör fólks í kreppunni með fullnægjandi hætti með þeim afleiðingum að mörg heimili upplifðu bæði fjárhagsþrengingar og andlega vanlíðan.
Greinina má lesa í heild sinni á vef Íslenska þjóðfélagsins. Höfundar greinarinnar eru dr. Margrét Einarsdóttir, félagsfræðingur, dr. Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins.
留言